Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er stjórnandi þáttanna, sem eru teknir upp fyrir framan áhorfendur í sal.
Meðal verkefna sem lögð voru fyrir í fyrsta þætti var gerð stuttmyndar. Auddi gerði stuttmyndina Sauður, með dyggri aðstoð Önnu Svövu Knútsdóttur. Stuttmyndin fjallar um sauðfjárbónda sem verður fyrir því óláni að riða greinist á bænum hans. Hana má sjá hér að neðan.
Steindi gerði þá stuttmynd um mann sem lendir í heldur skuggalegri atburðarás eftir að hafa pantað trúð í barnaafmæli. Sjón er sögu ríkari, en þá mynd má sjá hér að neðan.
Eftir að myndirnar tvær voru sýndar var það undir áhorfendum í sal komið að kjósa um hvor myndin hefði sigur. Svo fór að mynd Audda hlaut meiri hylli áhorfenda í sjónvarpssal. En þá er spurningin, hvor myndin er betri að mati lesenda Vísis?