Í fréttum Stöðvar 2 var kirkjujörðin Svalbarð heimsótt. Í Þistilfirði telja menn forystufé svo merkilegt að því er helgað sérstakt safn sem þar tók til starfa fyrir sjö árum.

„Þetta er sérfjárstofn. Þær eru öðruvísi en aðrar kindur, genetískt. Það eru önnur gen,“ segir Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forystufé, og segir að fjárskipti vegna mæðuveiki og riðu hafi valdið því stofninn nánast dó út í öllum landshlutum nema hér.
„Eins og er í dag þá eru allar forystukindur landsins upprunnar hér í Norður-Þingeyjarsýslu og þær eru fjórtánhundruð talsins á heimsvísu.
Það er eitt af þeim verkefnum sem við erum að vinna að núna; að koma þeim á lista yfir dýr í útrýmingarhættu hjá UNESCO.“

Daníel segir það einnig rætt hvort koma eigi forystufénu á heimsminjaskrá.
„Fyrir utan það að við erum að varðveita hér menningararf þjóðarinnar. Og sennilega mjög merkileg gegn sem eru í þessum skepnum, sem hvergi finnast í öðrum sauðfjárkynjum í heiminum.“
Við vorum í fylgd um Þistilfjörð með Steingrími J. Sigfússyni sem núna hefur látið af forystustörfum í þjóðmálum.

-Núna er hann að hætta á þingi. Vantar ekki einn forystusauð í viðbót á safnið?
„Jú, mig vantar á safnið, sko. Það vantar.. - ráðinn í vinnu næsta vor. Annars á hann nú hérna grip. Er það ekki rétt hjá mér?“
„Jú, jú. Markið mitt er á henni, allavega,“ svarar Steingrímur.
Fjallað var um Þistilfjörð í þættinum Um land allt. Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fjallað var um eiginlega ullar af forystufé í þessari frétt Stöðvar 2 í fyrra:
Stöð 2 heimsótti einnig Svalbarð og Þistilfjörð fyrir áratug þegar verið var að leggja drög að stofnun fræðasetursins: