Ásakanir sem þessar gegn hæst settu meðlimum Kommúnistaflokks Kína eru svo gott sem óþekktar, samkvæmt frétt Washington Post.
Peng, sem er 35 ára, varpaði ásökuninni fram á Weibo, sem er kínverskur samfélagsmiðill sem líkist Twitter. Hún segir Zhang, sem er 75 ára, hafa brotið á sér fyrst fyrir um þremur árum. Hann og eiginkona hans hafi boðið henni í mat og hann hafi nauðgað henni.
„Ég veitti aldrei samþykki þetta kvöld, grátandi allan tímann,“ skrifaði Peng.
Peng segist hafa átt í sambandi við Zhang á milli 2007 og 2012. Hún segist hafa látið undan þrýstingi frá Zhang og hitt hann oftar og hann hafi aftur brotið á henni.
Peng viðurkenndi í færslunni að hún gæti ekki sannað ásakanir sínar.
Í frétt New York Times segir að færslan hafi fljótt verið fjarlægð af internetinu í Kína og nú sé ekki hægt að leita að nafni hennar eða orðinu tennis í Kína. Skjáskot hafi hins vegar verið í dreifingu manna á milli vegna frægðar hennar og Zhang.
MeToo-hreyfingin hefur átt undir högg að sækja í Kína og hafa aðgerðasinnar verið handteknir. Í september var málið sem hóf hreyfinguna í Kína fellt niður og öll umræða um þá ákvörðun var fjarlægð af samfélagsmiðlum og internetinu í Kína.
Zhou Xiaouxuan, sem sakaði frægan sjónvarpsmann um að brjóta á sér, birti skilaboð þar sem hún lýsti yfir stuðningi við Peng og sagðist vona að hún væri ekki í hættu.
Peng var ein skærasta tennisstjarna Kína. Með Hsieh Su-wei vann hún tvíliðaleik á Wimbledon árið 2013 og franska opna meistarmótinu árið 2014. Það ár komst hún einnig í undanúrslit í bandaríska opna meistaramótinu.
Árið 2014 var hún í efsta sætinu á styrkleikalista Alþjóðatennissambandsins í tvíliðaleik og því fjórtánda í einliðaleik.