Árásin var gerð í kjölfar ósættis milli hóps þriggja manna og þess fjórða. „Verður til þess að það er dreginn upp hnífur og sá sem var einn á ferð hlaut sár á kvið og bak,“ segir Margeir.
Maðurinn sem var stunginn kom sér inn í verslun Hagkaupa þar sem hlúð var að honum. Hann var síðan fluttur á sjúkrahús með alvarlega áverka og annar með minniháttar áverka. Sá var útskrifaður fljótt.
Myndband af vettvangi má sjá í spilaranum hér að neðan:
Fjórir voru handteknir í tengslum við rannsókn málsins. Þremur þeirra var sleppt að yfirheyrslum loknum en einum haldið eftir í varðhaldi. Margeir hafði ekki upplýsingar um það hvort sá væri enn í haldi. Málið er talið upplýst.
Mennirnir eru á aldrinum 17 til 25 ára. Eðli málsins samkvæmt var barnaverndarnefnd gert viðvart þar sem einn þeirra er undir lögaldri.
Finnst ekki líða helgi þar sem kemur ekki upp gróf árás
Margeir Sveinsson segir í samtali við Vísi að alvarlegum ofbeldisbrotum hafi fjölgað síðastliðin tvö ár miðað við árin á undan. Þá segir hann að átökin séu orðin grófari. Hins vegar hafi mál er varðar vopnalagabrot fækkað.
„Tilfinningin er að það líði ekki helgi nema það sé einhver svona gróf árás, annað hvort með hníf eða alvarlegri líkamsárásir með spörkum og höggum,“ segir hann.
Þá segir hann að lögreglan merki aukningu í því að fólk beri á sér barefli eða hnífa.
Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegri útgáfu sagði að líkamsárásir hefðu ekki aukist. Hið rétta er að fjölgun hefur verið á alvarlegum líkamsárásum.