Skoðun

Á meðal þeirra sem við þjónum

Ása Laufey Sæmundsdóttir, Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Hreinn Hákonarson, Kristín Pálsdóttir, Sigrún Margrétar Óskarsdóttir og Toshiki Toma skrifa

Öll viljum við láta gott af okkur leiða í lífinu. Á Covid-tímum höfum við sérstaklega verið minnt á hversu samskipti og samvera með samstarfsfólki, vinum og vinkonum og ekki síst þeim sem okkur þykir vænst um er mikilvæg. Við höfum þörf fyrir stuðning úr okkar nánasta umhverfi sem nærir okkur andlega og gefur okkur þá orku sem við þurfum á að halda til að takast á við öll þau fjölbreyttu verkefni sem við stöndum frammi fyrir á degi hverjum. Verkefni sem geta bæði verið krefjandi og erfið en einnig fært okkur gleði og innihald í líf okkar. Covid hefur sett okkur skorður í samskiptum og sum okkar hafa þurft að passa sig betur en önnur af ýmsum ástæðum. Um leið höfum við einnig séð að fólk hefur fundið sér nýjar leiðir til að vera saman þó ekkert komi í stað þess að geta hist augliti til auglitis í eigin persónu.

Aðventan og jólin hafa verið sá tími þar sem við gerum okkur dagamun og hlúum að okkur sjálfum og öðrum með því að hittast og hugsanlega fara á tónleika eða á jólahlaðborð. Allt er þetta með öðru sniði nú en áður. Við sem störfum í sérþjónustu kirkjunnar finnum hvernig sá hópur fólks sem við sinnum hefur þurft að takast á við gríðarlegar áskoranir. Störf okkar eru meðal innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda, fatlaðra og fólks með þroskahömlun, á vettvangi sjúkrahúss- og fangaþjónustu sem og þeirra sem tilheyra menningarsamfélagi heyrnarlausra. Við erum ekki staðsett í ákveðnum kirkjubyggingum heldur erum á meðal þeirra sem við þjónum. Hlutverk okkar er að veita sálgæslu sem felur m.a. í sér stuðning og samfylgd á forsendum þeirra sem þjónustuna þiggja. Stuðningurinn er oft í formi samtala bæði við einstaklinga og fjölskyldur þar sem tekist er á við margs kyns vanda og andlegan, trúarlegan, tilvistarlegan og félagslegan sársauka. Í slíkum aðstæðum verða tilvistarlegu spurningarnar og vangavelturnar ágengari en ella þar sem spurt er hver tilgangurinn sé með þessu öllu saman og hvers vegna aðstæðurnar séu með þeim hætti sem raun ber vitni. Að takast á við veikindi, að vera innilokuð í fangelsi eða að finna sig vegna fötlunar og annarra hamlandi aðstæðna vera utangarðs í okkar samfélagi er gífurleg áskorun sem á Covid-tímum hefur síst orðið auðveldari.

Við undirrituð sérþjónustuprestar viljum minna okkur öll á þennan hóp fólks sem þjónusta okkar tekur til. Við teljum það afar mikilvægt að við sem samfélag stöndum vörð um sálgæsluþjónustu á heilbrigðisstofnunum, fangelsum, meðal fatlaðra og fólks með þroskahömlun, heyrnarlausra og þeirra sem hingað koma í leit að betra lífi.

Ása Laufey Sæmundsdóttir, prestur innflytjenda

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, sjúkrahúsprestur

Guðný Hallgrímsdóttir, prestur fatlaðra

Hreinn Hákonarson, sérþjónustuprestur á samskiptasviði Biskupsstofu

Kristín Pálsdóttir, prestur heyrnarlausra

Sigrúnar Margrétar Óskarsdóttir, fangaprestur

Toshiki Toma, prestur innflytjenda




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×