Stjórnvöld í Kreml hafa skilgreint Alþjóðlega minningarfélagið, sem rannsakar og minnist andófsfólks sem var myrt og fangelsað í Sovétríkjunum, og Mannréttindaminningarmiðstöðina, sem rannsakar mannréttindabrot í samtínum, sem erlenda útsendara. Þeim ber því skylda til að setja fyrirvara við allt efni sem þau birta opinberlega og þurfa að sæta ströngum reglum um fjármál sín.
Nú saka saksóknarar mannréttindasamtökin um að dylja vísvitandi og kerfisbundið stöðu sína sem útsendarar erlendra ríkja að mati stjórnvalda með því að slá ekki alla þá varnagla sem þeim bar. Því beri að leysa félagið upp þrátt fyrir að forsvarsmenn þess fullyrði að þeir hafi lagt sig í lima við að fylgja öllum reglum og kvöðum.
Vladímír Pútín forseti hefur hert tök sín í Rússlandi og gengið sífellt harðar gegn stjórnarandstæðingum og andófsfólki. Alræðishneigð hans minnir marga á ógnarstjórn Sovétríkjanna.
Þrátt fyrir það kom það erlendum mannréttindasamtökum á óvart að stjórn hans skyldi reiða til höggs gegn Alþjóðlega minningarfélaginu. Þau voru fyrst skilgreind sem útsendarar útlendinga árið 2014 og systursamtök þeirra tveimur árum síðar. Síðan þá hafa þau sætt ítrekuðum rassíum lögreglu og sektum fyrir meint brot á lögunum.
Tanya Lokshina, talskona Mannréttindavaktarinnar, segir tilburði rússneskra stjórnvalda til að banna starfsemina „svívirðilega árás á slagæð borgaralegs samfélags í Rússlandi“. Evrópskir erindrekar hafa lýst yfir áhyggjum, að sögn Washington Post.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakaði rússnesk stjórnvöld um að misnota lög um erlenda útsendara til þess að áreita, brennimerkja og þagga niður í félagasamtökum í landinu.
Málið gegn samtökunum verður næst tekið fyrir um miðjan desember.