Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins var meðal þeirra þingmanna sem fékk kynningu á fjárlagafrumvarpinu snemma í morgun. Hann segist ætla að nota næstu daga til að fara betur ofan í það en sjái þegar ýmsar veikar hliðar á frumvarpinu.
„Maður hefur áhyggjur af heildarútgjaldarammanum sem er býsna þaninn. Þá þyrfti að hafa skýrari greinarmun á viðbót í rekstri og viðbót í fjárfestingu. Það eru meiri lausatök í viðbótum á rekstrinum. Við sjáum t.d. að nýfjárfestingar í samgöngum fara niður um 22% milli ára og 37% sé horft til ársins 2024. Það kemur á óvart miðað við hvernig hefur verið látið með fyrirhugaða uppbyggingu samgöngukerfisins,“ segir Bergþór.
„Þegar heildarútgjöldin eru upp á 1.203 milljarða króna þá hlýtur að vera meira svigrúm til að fara betur með skattfé en kemur fram í þessu fjárlagafrumvarpi,“ segir Bergþór að lokum.