Austurrískir fjölmiðlar segja að hinn 49 ára Nehammer taki við kanslaraembættinu af Alexander Schallenberg sem tilkynnti um afsögn sína síðdegis í gær.
Schallenberg tók tímabundið við embætti kanslara eftir að Sebastian Kurz, formaður Þjóðarflokksins, sagði af sér vegna spillingarmála, en Kurz tilkynnti í gær að hann ætlaði sér að segja skilið við stjórnmálin.
Nehammer var lengi starfandi innan hersins og er líkt og Kurz þekktur fyrir andstöðu sína við straum innflytjenda til landsins og róttækt íslam.
Schallenberg mun snúa aftur í embætti utanríkisráðherra eftir að Nehammer tekur við embætti kanslara, embætti sem hann gegndi þar til að Kurz sagði af sér í október.
Nehammer hefur gegnt embætti innanríkisráðherra frá janúar 2020.