En hér eru þrjú einföld ráð sem geta hjálpað okkur að meta hvaða vinnufélagar eru traustsins verðir og hverjir ekki.
1. Orðspor og upplifun
Ein leiðin er að hlusta vel eftir því hvert orðspor vinnufélagsins er. Er það jákvætt? Því ef svo er, eru allar líkur á því að orðsporið sé jákvætt vegna þess að viðkomandi telst duglegur og samviskusamur til vinnu.
Eins er hægt að velta því fyrir sér hvernig þú upplifir viðkomandi: Er upplifunin sú að viðkomandi sé duglegur, samviskusamur og vandvirkur? Eða virðist viðkomandi kærulaus, latur og gjarn á að gera mistök?
2. Hrós og skammir
Önnur vísbending er að vera vakandi yfir samskiptum sem fela í sér hrós eða viðurkenningu á mistökum.
Ef að viðkomandi er virkur í að hrósa öðrum fyrir góðan árangur eða ófeiminn við að viðurkenna á sjálfan sig mistök, séu þau gerð, er líklegt að þú getir vel treyst viðkomandi.
Fólk sem á erfitt með að hrósa eða samgleðjast árangri annarra, á það til að eigna sér árangur annarra eða kennir öðrum oftast um sín eigin mistök, er síður traustsins vert.
3. Hvernig talar þetta fólk um annað fólk?
Síðast en ekki síst er það gamla góða ráðið um að hlusta alltaf vel á það hvort fólk baktalar annað fólk í þinni áheyrn.
Því ef það baktalar annað fólk, eru allar líkur á að það baktali þig þegar þú ert ekki nærri.
Hér er lykilatriðið að taka aldrei þátt í baktalinu og að treysta viðkomandi ekki fyrir neinum viðkvæmum upplýsingum um þig, verkefnin þín eða annað.