Skoðun

Svar við bréfi Bergsveins

Finnbogi Hermannsson skrifar

Mér er innanbrjósts eins og Jóni þjófi. Eftir að stolið var frá Jóni aumingjanum, var hann aldrei kallaður annað en Jón þjófur.

Það er fyrst til að taka, að ég, Finnbogi, er hjartanlega sammála skáldinu Bergsveini Birgissyni um að mig skorti frumleika. Ég hef verið að leita að frumleika allt mitt líf og reynt að byggja hann upp í bráðum 80 ár en er ekki kominn lengra en sem þessu nemur. Aftur á móti sýnist mér það ekki mjög frumlegt að ljúga því blákalt á prenti að ég hafi endurútgefið Einræður Steinólfs bónda í Fagradal án þess að útgáfuréttur hans væri virtur og hans ekki getið aftan við C-ið. Þar stendur C Finnbogi Hermannsson/Steinólfur Lárusson. Ljósmynd af þessu á að birtast með þessu svari við bréfi Bergsveins.

Finnbogi Hermannsson

Til að halda öllu til haga þá var það Steinólfur Lárusson sem bað mig um að skrifa ævisögu sína árið 2002 og ég játti því. Hún varð ,,besteller“ 2003 og prentuð tvisvar ári seinna, 2003. Bókin varð fljótt með öllu uppseld og ákvað ég því að gefa hana aftur út í smáu upplagi árið 2019 með viðbótum. Bæði með sögulegum ramma Skarðsstrandarinnar og einnig var ég forvitinn um uppeldisfræðinginn Steinólf í Fagradal. Tók ég viðtöl við öll börn hans um uppvöxtinn í Fagradal og færði inn í bókina. Öll voru þau samskipti með ágætum. Því finnst mér þurfa mikinn og merkilegan frumleika til að halda öðru fram.

Raunar er þetta smjörklípuaðferð rökþrota skálds sem staðinn hefur verið að ritstuldi á sjö ára gömlu efni frá skáldyrðingi vestur á fjörðum. Eitthvert fimbulfamb um frændsemi og því um líkt er út í hött. Lýk ég svo þessu svari við bréfi Bergsveins og óska honum alls velfarnaðar.

Höfundur er rithöfundur


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×