Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að eftir að nýi Herjólfur komst í fullan rekstur fyrir tveimur árum hafi hlutverk þess gamla verið í talsverðri óvissu.
„Að liggja verkefnalaust við bryggju fer illa með skip og rekstur og viðhald við þær aðstæður mjög kostnaðarsamt,“ segir í frétt Vegagerðarinnar þar sem skýrt er frá viðræðum við Færeyinga um að samnýta gamla Herjólf með einhverjum hætti.

Rekstrarfélag færeyskra ferja, Strandfaraskip, hafi sýnt áhuga á að taka Herjólf III í sína þjónustu sem uppbótarskip til að mæta álagstímum á siglingaleiðum innan Færeyja.
„Skipið verður fullmannað og í reglubundinni notkun en ekki fast í áætlanasiglinum. Það þýðir að skipinu verður viðhaldið og áhöfn er til staðar og ferjan þá einungis í um sólarhrings fjarlægð frá Íslandi.“
Vegagerðin segir það þó grunnforsendu samninga að gamli Herjólfur verði aðgengilegur, þegar þörf reynist á, og verði þannig áfram varaferja fyrir nýja Herjólf.
„Vestmannaeyjar eru háðar ferjusiglingum og hluti af því að búa við slíkar samgöngur er að geta reitt sig á varaleið þegar Herjólfur þarf að fara í reglubundið viðhald og ekki síður ef eitthvað óvænt kemur upp.“
Það sé því áhugavert að sjá hvort samnýta megi skipið bæði í Færeyjum og á Íslandi. Niðurstöðu viðræðna sé að vænta á næstu mánuðum.
Vegagerðin segist vera búin að skoða ítarlega hvort skipið gæti komið í stað Breiðafjarðarferjunnar Baldurs á leiðinni milli Stykkishólms og Brjánslækjar. Niðurstaðan sé sú að hafnarmannvirkin þar henti gamla Herjólfi engan veginn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: