Þetta staðfestir lögregla við fréttastofu en málið er nú í rannsókn. Einn hefur verið tekinn í skýrslutöku vegna málsins en óljóst er hve margir standa að baki félaginu. Fjórir eru skráðir í stjórn þess.
Eins og Vísir greindi frá síðasta mánudag virðist engin starfsemi hafa verið í gangi hjá félaginu frá því að það var stofnað fyrir rúmu ári síðan. Fréttastofu hefur ekki tekist að ná í neinn stjórnarmeðlim þess.
Á heimasíðu Vonarneista segir að félagið hafi það markmið að styðja við verkefni sem bæta hag heimilislausra á Íslandi. Það er þó hvergi að finna á almannaheillaskrá Skattsins.
Krafan sem Vonarneisti sendi í heimabanka fjölda Íslendinga hljómaði upp á 2.490 krónur en slíkar valkröfur eru alls ekki óalgengar frá góðgerðafélögum, sérstaklega rétt fyrir jól. Einhverjir greiddu kröfuna frá Vonarneista en óljóst er hve margir gerðu það áður en þær voru fjarlægðar úr heimabönkum.
Óljóst er hvað verður af þeim pening en það er erfitt fyrir lögreglu að taka á málum sem þessum þar sem lagaumhverfið í kring um góðgerðafélög og starfsemi þeirra er ekki mjög skýr.
Slíkar kröfur eru sendar í gegn um fjármálastofnanir en samkvæmt heimildum fréttastofu átti Vonarneisti í viðskiptum við Sparisjóð Höfðhverfinga og komu kröfurnar þaðan.
Þegar fréttastofa leitaði eftir viðbrögðum frá sparisjóðnum um helgina og í vikunni vildi hann ekki bregðast við málinu og vísaði alfarið á lögreglu.
Hér er hægt að lesa um valkröfur. Allir sem fá valkröfur geta auðvitað eytt þeim úr heimabankanum sínum.