XY tryggði sér þriðja sætið með sigri á Fylki

Snorri Rafn Hallsson skrifar
xy-fylkir

Með sigri í leik gærkvöldsins gat XY komið sér aftur upp fyrir Vallea í baráttunni um þriðja sætið. Að sama skapi gat Fylkir tyllt sér við hlið Ármanns og blandað sér í miðjuslaginn eftir góða sigra undanfarið. Fyrri viðureign liðanna, í fjórðu umferð, var afar jöfn og þurfti tvöfalda framlengingu til að knýja fram sigurinn sem XY náði að lokum 22-20.

Leið liðanna lá í Vertigo kortið þar sem Fylki hefur gengið ágætlega hingað til en XY hafði ekki áður leikið þar á þessu tímabili. Fylkismenn unnu hnífalotuna örugglega og kusu að byrja í vörn (Counter-Terrorist). Leikurinn hófst með miklum látum og vannst fyrsta lotan fyrir Fylki með stórfenglegum ás frá K-Dot. Hann lét þó ekki mikið fyrir sér fara það sem eftir var leiks og náði XY snemma góðri forystu. Liðsmenn XY héldu sig saman á ferð sinni um kortið, tryggðu að enginn gæti komið þeim að óvörum og fóru skref fyrir skref fram völlinn af miklu öryggi. MiniDeGreez gerði sig gildandi í opnunarhlutverkinu og framan af féll allt með XY. Vörn Fylkis var ítrekað söxuð niður og hvorki gekk né rak hjá Fylkismönnum nema þegar Zerq lét finna fyrir sé með vappanum.

Staða í hálfleik: XY 11 - 4 Fylkir

Leikar snerust eilítið við í upphafi síðari hálfleiks þegar Fylki tókst að vinna fjórar lotur í röð. XY átti þá í örlitlu basli með efnahaginn en tók þá snjöllu ákvörðun að eyða engu fjármagni í vitleysu og spara við sig í vopnakaupum þar til liðið gat vígbúist að fullu. Forskotið sem byggst hafði upp í fyrri hálfleik gaf þeim nægt svigrúm til þess og héldu XY því uppteknum hætti til loka leiks. MiniDeGreez var gríðarlega öflugur og átti KeliTurb0 einnig frábært augnablik í næst síðustu lotunni þegar hann laumaði sér að sprengjunni í reykjarmekkinum og tókst að aftengja hana þó hann væri umkringdur andstæðingum.

Lokastaða: XY 16 - 9 Fylkir

XY vissi nákvæmlega hvað til þurfti í gegnum allan leikinn til þess að skapa sér pláss og búa til tækifæri og þegar upp var staðið áttu Fylkismenn einfaldlega engin svör við þéttu leikskipulagi XY. Eftir jólafrí mætir XY Þór þann 14. janúar en þann 11. janúar tekur Fylkir á móti Dusty. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir