Alsír þurfti nauðsynlega á sigri að halda gegn Fílabeinsströndinni til að koma sér í 16-liða úrslit.
Leikurinn fór þó ekki nógu vel af stað fyrir þá þar sem að Franck Kessie kom Fílabeinsströndinni yfir eftir rúmlega tuttugu mínútna leik.
Ibrahim Sangare tvöfaldaði forystu Fílabeinsstrendinga stuttu fyrir hálfleik eftir stoðsendingu frá Serge Aurier og því var staðan 2-0 þegar gengið var til búningsherbergja.
Nicolas Pepe stráði salti í sár Alsíringa þegar hann breytti stöðunni í 3-0 á 54. mínútu. Riyad Mahrez fékk svo tækifæri til að minnka muninn af vítapunktinum eftir klukkutíma leik, en klikkaði á spyrnunni.
Alsíringar náðu loks að minnka muninn á 73. mínútu með marki frá Sofiane Bendebka, en þá var of seint í rassinn gripið og niðurstaðan 3-1 sigur Fílabeinsstrandarinnar.
Fílabeinsströndin endar því í efsta sæti E-riðils með sjö stig, en Alsíringar eru úr leik eftir að hafa aðeins náð í eitt stig í riðlakeppninni og hafna í neðsta sæti.
⏩🌟 FINAL 1️⃣6️⃣ 🌟
— #TotalEnergiesAFCON2021 🏆 (@CAF_Online) January 20, 2022
🔥 #TeamCotedIvoire book their spot in the Round of 16 of the #TotalEnergiesAFCON2021 🎫 ✅ #AFCON2021 | @FIFCI_tweet pic.twitter.com/t21TrZc3c2
Þá tryggði Miðbaugs-Gínea sér einnig sæti í 16-liða úrslitum með 1-0 sigri gegn Síerra Leóne.
Eina mark leiksins skoraði Pablo Ganet á 38. mínútu. Kei Ansu Kamara fékk gullið tækifæri til að jafna leikinn af vítapunktinum stuttu fyrir leikslok, en klikkaði á spyrnunni.
Þá fékk Kwame Quee, leikmaður Íslandsmeistara Víkings, að líta sitt annað gula spjald, og þar með rautt, á lokamínútu leiksins.