Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að þegar stjórn Icelandair ákvað árið 2012 að kaupa Boeing 737 Max-þoturnar var miðað við að síðar þyrfti að kaupa stærri og langdrægari þotur til að sinna fjarlægari áfangastöðum samhliða því sem Boeing 757 fækkaði í flotanum. Max-vélunum var ætlað að þjóna áfangastöðum félagsins í Evrópu en einnig þeim á austurströnd Bandaríkjanna sem næstir eru Íslandi. Reyndin hefur orðið sú að þær drífa mun lengra, meðal annars til Orlando og Seattle.

Icelandair hefur núna ákveðið að fá tvær Max-vélar til viðbótar fyrir sumarið. Þrýstingur á nýja tegund hefur minnkað.
„Hún er bara hagkvæmari hvað varðar eldsneytisnotkun, notar minna eldsneyti heldur en gert var ráð fyrir. Það þýðir að hún getur þá flogið lengra,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Alls verða fjórtán Max-vélar í flota Icelandair næsta sumar. Það þýðir að Maxarnir verða fleiri en 757-vélarnar, sem verið hafa burðarklár félagsins í þrjátíu ár. En núna styttist í að þær hverfi úr þjónustu félagsins en sautján ár eru frá því Boeing hætti framleiðslu 757.

„Við höfum verið að taka þær smám saman út úr flotanum og fækka þeim. Við vorum með, held ég, mest um tuttuguogfimm 757-vélar í farþegaleiðakerfinu og verðum með þrettán núna í sumar. Og reiknum með að svona árið 2026 fari síðustu sjö-fimmurnar að fara út úr flotanum okkar.“
Auk 737 og 757 rekur félagið breiðþotur af gerðinni Boeing 767, sem taka um 260 farþega, eitthundrað fleiri en Max átta þoturnar. 767-breiðþoturnar segir Bogi auk þess henta vel í fraktflugi.

„Við erum með mjög heppilegan flota fyrir leiðakerfið og höfum nokkra valmöguleika til framtíðar, sem er mjög mikilvægt þegar við förum að - hvað eigum við að segja – etja framleiðendum og fjármögnunaraðilum saman.“
Bogi gerir ráð fyrir að á síðari hluta þessa áratugar þurfi að taka inn nýjar vélar til að leysa 757-vélarnar endanlega af hólmi. Félagið sé enn spennt fyrir Airbus þotum af 320 línunni, þá einkum A321 LR. Einnig séu breiðþotur til skoðunar, þar á meðal Boeing 787 Dreamliner.

„Síðan eru 787-breiðþotur líka, sem koma til greina, og henta mjög vel til dæmis fyrir cargo-flutninga með farþegaflutningunum – bara kemur vel út í okkar módelum – og eitthvað sem er þá valkostur við hliðina á – hvað eigum við að segja - Airbus-fjölskyldunni til lengri tíma hjá okkur,“ segir forstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: