Rússar hafa lengi haldið þessari kröfu á lofti en Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur nú hafnað henni formlega. Svar Blinken var sent Rússum í samstarfi við aðrar NATO-þjóðir að því er segir í umfjöllun BBC um málið en viðbrögð hafa enn ekki borist frá Rússum.
Mikil spenna er nú í Úkraínu þar sem óttast er að innrás Rússa sé yfirvofandi. Þeir sendu á dögunum lista yfir kröfur sínar sem væru til þess fallnar að losa um spennuna og þar á meðal var að Úkraínumönnum og fleiri ríkjum yrði aldrei veitt innganga í NATO.
Blinken segir í svarbréfi sínu að Úkraína sé sjálfstæð þjóð sem yrði ekki sagt fyrir verkum. Landið geti því sótt um aðild að bandalögum á borð við NATO ef vilji er fyrir slíku.