Maldonado varð mjög vinsæll þegar Netflix sýndi heimildarþættina Tiger King árið 2020.
Stuðningsmenn Maldonados vilja hann lausan úr fangelsi en ólíklegt þykir að það gerist þar sem viðmið segja að dæma eigi menn í 17 og hálft til 22 ára í fangelsi fyrir brot eins og það sem hann var dæmdur fyrir.
Maldonado var dæmdur til 22 ára fangelsisvistar árið 2020 fyrir að hafa reynt að greiða tveimur mismunandi mönnum peninga fyrir að myrða Carole Baskin. Hún rak skýli fyrir stór kattardýr og hafði gagnrýnt Maldonado harðlega fyrir meðferð hans á kattardýrum.
Áfrýjunardómstóll komst svo að þeirri niðurstöðu að réttast væri að stytta dóm Maldonado því réttara hefði verið að fella tvær ákærur gegn honum saman í eina, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Meðal annars reyndi Maldonado að greiða útsendara Alríkislögreglu Bandaríkjanna tíu þúsund dali fyrir að myrða Baskin. Hann sagði honum að elta Baskin inn í bílastæðahús, drepa hana og keyra á brott. Við réttarhöldin sögðu verjendur Maldonados að honum hefði ekki verið alvara.
Hann var einnig dæmdur fyrir að drepa fjögur tígrisdýr, selja tígrisdýraunga og falsa opinber gögn.
Maldonado er með krabbamein í blöðruhálskirtli og lögmenn hans segja að hann hafi frestað meðferð þar til dómur hans verði mildaður.