Gert var ráð fyrir því að lokað yrði fyrir heitt vatn í eftirfarandi hverfum frá klukkan 17 til 21 í dag. Tilkynning barst frá Veitum fyrir skömmu þar sem upplýst var um að fallið yrði frá lokunum.
Í Reykjavík átti að loka fyrir heitt vatn í Selási, Norðlingaholti og á Vatnsenda. Lokun átti einnig að taka til Salahverfis og efri Linda í Kópavogi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
Þá hugðust Veitur einnig loka fyrir heita vatnið í Hnoðraholti, Holtsbúð og Urriðaholti í Garðabæ. Í Hafnarfirði átti að loka fyrir heitt vatn í Setbergi, á Völlum, Hrauni, Áslandi, Hvaleyrarholti og í Dalsás.
Eins og greint var frá fyrr í dag er heildarframleiðslugeta á heitu vatni fyrir hitaveitu höfuðborgarsvæðisins skert um 30% vegna bilunar í Nesjavallavirkjun. Engin framleiðsla er á vatni á Nesjavöllum eins og stendur.
Við bilunina kom högg á dreifikerfi hitaveitunnar með þeim afleiðingum að leki kom að annarri Reykjaæðinni en þær flytja heitt vatn frá Mosfellsbæ til borgarinnar. Hitaveitugeymar á Reynisvatnsheiði hafa því sem næst tæmst í morgun.
Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum upplýsingum frá Veitum.