Spennan hefur verið mikil undanfarnar vikur á landamærum Rússlands og Úkraínu og bendir ýmislegt til þess að Rússar séu að undirbúa innrás. Um 100.000 hermenn hafa safnast saman við landamærin þar sem Rússar hafa meðal annars komið upp birgðum af blóði fyrir særða hermenn ef koma skyldi til átaka. Bandarískir embættismenn telja þetta augljósa vísbendingu um að Rússar séu að undirbúa átök og séu tilbúnir í þau.
Á blaðamannafundi Joe Biden í gær tilkynnti hann að á næstu dögum yrðu bandarískir hermenn fluttir til Austur-Evrópu til að styrkja hersveitir NATO á svæðinu. Ekki yrði um mikinn fjölda að ræða en tugþúsundir hermanna eru nú þegar staðsettir í Evrópu en þá aðallega í vesturhluta álfunnar.

Hljóðið í Úkraínumönnum sjálfum er þó töluvert annað en í forsvarsmönnum NATO. Nokkrum klukkustundum áður en Biden hélt sinn fund hélt Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, blaðamannafund þar sem hann sagði að hann hefði beðið Biden um að ýkja ekki hættuna á stríði í fjölmiðlum.
„Það eru engir stríðsvagnar á götunum hér en fjölmiðlar láta líta út fyrir það að hér sé stríð. Þannig er það ekki og við þurfum ekki þessa hræðslu,“ sagði Zelensky á blaðamannafundinum og bætti við að almenningur í Úkraínu hefði lært að lifa með hótunum nágranna sinna síðan Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.
Vladimir Putin, forseti Rússlands, ræddi við Emanuel Macron Frakklandsforseta í síma í gær þar sem hann ítrekaði að hann vildi ekki að ástandið myndi magnast enn frekar. Rússar hafa haldið því fram að heræfingar séu ástæðan fyrir fjölgun rússenskra hermanna á landamærunum við Úkraínu og utanríkisráðherrann Sergei Lavrov sagði að það væri af og frá að Rússar vildu hefja stríð.