Uppstillingarnefnd Eflingar leggur fram svo kallaðan A-lista með Ólöfu Helgu Adolfsdóttur starfandi varaformann í oddvitasæti en hún tók við varaformennskunni þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér formennsku í lok október. Umboðsmenn tveggja annarra framboða mættu síðan með framboðs- og meðmælendalista á skrifstofu Eflingar skömmu fyrir klukkan níu í morgun þegar framboðsfrestur rann út.
Efling er annað fjölmennasta stéttarfélag landsins með um 27 þúsund félaga. Áherslur félagsins í kjaramálum vega þar af leiðandi þungt við samningaborðið. Það getur því skipt miklu máli hver og hverjir skipa forystu félagsins nú þegar kjarasamningar á almennum vinnumarkaði til næstu ára eru framundan.

Ólöf Helga segir að tekist hafi að skapa góðan starfsanda á skrifstofu Eflíngar undanfarna þrjá mánuði. Áherslur í komandi kjaraviðræðum verði meðal annars á skattamál.
„Við stefnum á að leggja mikla áherslu á húsnæðismál. Viljum byggja mikið upp bæði á fasteignamarkaði og leigumarkaði. Okkur finnst mikilvægt að endurvekja vaxtabótakerfið. Það hefur svolítið fengið að fjara út en það er mjög mikilvægt fyrir lágtekjufólk sérstaklega,“ segir Ólöf Helga.
Þá ættu lífeyrissjóðirnir að koma að uppbyggingu óhagnaðardrifinis húsnæðis.

Guðmundur Baldursson stjórnarmaður í Eflingu leggur einnig mikla áherlsu á húsnæðis- og vaxtamál sem og eflingu grasrótarinnar innan félagsins. Hann hefur deilt hart á stjórnunaraðferðir Sólveigar Önnu undanfarin ár.
Upplausn á skrifstofunni hafi kostað félagið 128 milljónir vegna langtíma veikinda starfsmanna, launa á óunnum uppsagnarfresti og kostnaðar við starfslokasamninga. Um fjörtíu starfsmenn hafi hætt störfum á skrifstofunni sem gæti endurtekið sig nái Sólveig Anna kjöri.

„Skrifstofa Eflingar er hryggjarstykkið í þessu samfélagi. Hver á að þjónusta þetta fólk, þessa þrjátíu þúsund félagsmenn? Það er náttúrlega fólkið á skrifstofunni. Þú hendir því ekki bara út. Skiptir út. Hvað þýðir það. Jú, það þýðir væntanlega annar og svipaður kostnaðarauki eins og hefur verið í tíð Sólveigar Önnu. Yfir hundrað milljónir. Vill fólk það? Ég segi nei,“ segir Guðmundur Baldursson.
Sólveig Anna afþakkaði viðtal þegar eftir því var leitað í dag.