Gleðipinnar eiga og reka tíu vörumerki í dag. Flest þeirra eru veitingastaðir (Pítan, American Style, Saffran, Hamborgarafabrikkan, Shake&Pizza, Aktu taktu, Blackbox og Djúsi by Blackbox), en Gleðipinnar eiga einnig trampólíngarðinn Rush og Keiluhöllina. Þá er fyrirhugað að opna nýjan veitingastað á Suðurlandsbraut með vorinu í samstarfi við hjónin Ásu Maríu Reginsdóttur og Emil Hallfreðsson: Olifa – La Madre Pizza.
Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um vörumerkjastjórnun en Bestu íslensku vörumerkin 2021 verða valin í dag og verður viðburðurinn í beinni útsendingu á Vísi klukkan 12. Jóhannes er meðal þeirra sem er í valnefnd.
Eilífðarverkefni þar sem „allt“ skiptir máli
Jóhannes segir Gleðipinnafjölskylduna telja um 400 starfsmenn af rúmlega tuttugu þjóðernum.
Fyrirtækin sem Gleðipinnarnir eiga og reka eiga sér hins vegar ólíkar sögur. Enda spanna þau mislöng tímabil.
Elstu fyrirtækin eru Pítan, American Style og Keiluhöllin sem öll voru stofnuð árið 1985.
Það yngsta var stofnað árið 2021, Djúsi by Blackbox sem rekið er á þremur stöðum: Á Blackbox Pizzeria í Borgartúni og á tveimur N1 stöðvum, í Borgarnesi og í Hveragerði.

Jóhannes segir mestu skipta að vita fyrir hvað hvert og eitt vörumerki stendur og síðan snúist verkefnið um það að miðla því til samstarfsfólks. Þar sé höfuðáherslan á gæði matar og þjónustu en eins að virkja gleðina í starfinu, vera óhrædd við að prófa nýjungar, breyta til og hugsa út fyrir kassann.
Það að stýra rekstri og vörumerkjum er eilífðarverkefni, því er aldrei lokið. Allt sem gerist á veitingastöðunum, allt niður í minnstu smáatriði, er í raun og veru hluti af uppbyggingu og viðhaldi vörumerkisins.“
Að þykja vænt um starfsfólkið lykilatriði
Jóhannes segir hugtakið vörumerki heillandi fyrirbæri sem samsett er úr ótal breytum. Styrkleiki og ímynd vörumerkja sé eitthvað sem byggist upp á löngum tíma. Enda eitthvað sem snýst um viðhorf viðskiptavina og almennings til vörumerkjanna.
Til þess að byggja upp sterk vörumerki þarf vörumerkið alltaf að vita fyrir hvað það stendur.
„Að vörumerkið þekki sinn kjarna, og að rekstur þess sé vel undirbúinn og vandaður, með gæði og stöðugleika að leiðarljósi,“ segir Jóhannes og bætir við:
Það mætti líkja uppbyggingu vörumerkis við barnauppeldi. Það má aldrei sofna á verðinum, það þarf umhyggju, fyrirhyggju, reglur og ramma.“

En hversu miklu máli skiptir vörumerkið þegar það kemur að fjárfestum. Til dæmis fjárfestum sem vilja kaupa fyrirtæki eins og Gleðipinnar hafa gert?
„Þegar vörumerki er sett í samhengi við fjárfestingar skiptir mestu máli að geta lagt mat á, með mælanlegum hætti, hver staða vörumerkisins er. Aðeins þannig er hægt að gera raunhæfar áætlanir um frammistöðu og árangur þess sem verið er að kaupa,“ segir Jóhannes.
Jóhannes segir stöðu vörumerkis hafa mikið um það að segja hvert virði fjárfestingarinnar er. Hins vegar þýði það ekki, að aðeins sterk vörumerki komi til greina sem álitlegir fjárfestingakostir.
„Það að vörumerki sé laskað eða á slæmum stað þarf þó ekki sjálfkrafa að þýða að tækifærið sé ekki til staðar. Í sumum tilfellum getur það verið falið sóknarfæri.“
Að mati Jóhannesar snúist uppbygging á góðu vörumerki um margt annað en eingöngu markaðsmál eða ásýnd.
„Mannauðsmál eru okkur afar hugleikin og erum við fyrsta fyrirtækið, svo vitað sé, sem ræður í stöðu Móralsks leiðtoga. Pétur Jóhann Sigfússon er Móralskur leiðtogi Gleðipinna og tryggir að mórallinn sé alltaf í topplagi,“ segir Jóhannes og bætir við:
Það gleymist oft í umræðu um vörumerki að starfsfólkið er stór hluti af vörumerkinu. Og til þess að vörumerki geti blómstrað þá þarf starfsfólk að blómstra.“