Overmars hætti hjá Ajax á sunnudaginn. Í yfirlýsingu frá Ajax kom fram að hann hefði farið yfir mörk samstarfskvenna sinna.
Í úttekt hollenska miðilsins NRC kemur fram að Overmars hafi áreitt að minnsta kosti ellefu samstarfskonur sínar. Hann sendi þeim óumbeðnar typpamyndir og beitti þrjár þeirra kynferðislegu ofbeldi.
Að sögn kvennanna, sem koma ekki fram undir nafni, er vinnustaðamenningin hjá Ajax mjög karlpungaleg og konur þar mega þola ítrekaðar niðrandi athugasemdir. Þá segir ein konan að leikmaður Ajax hafi áreitt hana kynferðislega.
Overmars hafði verið yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax í áratug þegar hann hætti. Hann var áður leikmaður liðsins og varð meðal annars Evrópumeistari með því 1995. Overmars gerði seinna garðinn frægan hjá Arsenal.