Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins en vottorðið verður aðgengilegt í stafrænu pósthólfi einstaklinga á Mínum síðum á Ísland.is. Stafræn sakavottorð eru með sjálfvirkri enskri þýðingu og þarf því ekki að sækja slík vottorð sérstaklega.
Einstaklingum mun áfram standa til boða að sækja sakavottorð gegn framvísun persónuskilríkja í afgreiðslu sýslumannsembættanna og sömuleiðis geta starfsmenn sýslumanna aðstoðað fólk við að nálgast stafræn sakavottorð.
Að sögn dómsmálaráðuneytisins hefur mikil aukning verið í útgáfu sakavottorða undanfarin ár. Árið 2021 voru 13.500 sakavottorð gefin út sem er 37% aukning milli ára.