Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fararstjórn íslenska hópsins. Þar segir að ákvörðun hafi verið tekin í dag en keppni í stórsvigi er á dagskrá leikanna á morgun.
„Sturla Snær greindist með COVID-19 fyrir viku síðan og var í framhaldinu fluttur úr Ólympíuþorpinu og í einangrun á spítala. Hann losnaði úr einangrun í gær og kom aftur í Ólympíuþorpið þar sem hann verður í sóttkví næstu daga.
Eftir æfingu í dag var tekin sú ákvörðun að Sturla Snær muni ekki keppa í stórsvigi að þessu sinni heldur einbeita sér að undirbúningi og keppni í svigi sem fram fer miðvikudaginn 16. febrúar næstkomandi,“ segir í yfirlýsingu frá Andra Stefánssyni, fararstjóra íslenska hópsins og framkvæmdastjóra ÍSÍ.
Sturla er áfram í kappi við tímann en keppni í svigi, hans aðalgrein, fer fram á miðvikudaginn kemur.