Vikulangri kosningu til formanns og helmings stjórnar Eflingar lauk í gærkvöldi. A-listi uppstillingarnefdar hlaut 37 prósent atkvæða, B-listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur fékk 52 prósent og C-listi Guðmundar Baldurssonar 8 prósent. Sólveig Anna þakkar sigurinn þann mikla stuðning sem hún hafi fundið hjá félögum Eflingar.
„Og svo þakka ég því líka að við höfum auðvitað sýnt á síðustu árum að við meinum það sem við segjum. Við erum tilbúin til að leggja allt í sölurnar til þess að berjast fyrir félagsfólk Eflingar. Það hlýtur auðvitað líka að hafa skilað þessari niðurstöðu,“ segir Sólveig Anna.
Ólöf Helga Adolfsdóttir formannsefni A-listans segir úrslitin vissulega vonbrigði. Listinn hafi ætlað sér að vinna.
„Við virðumst hafa náð ákveðnu fylgi. Ég tel það góðan vísi á að það séu kannski ekki allir í Eflingu hlynntir orðræðu Sólveigar. Telja kannski ekki að það eigi að aðskilja starfsfólk skrifstofunnar og þeirra hagsmuni frá eflingarfélögum, að það sé sé rétta leiðin,“ segir Ólöf Helga.

Óróleikinn innan Eflingar undanfarin misseri hefur ekki farið framhjá neinum. Nú þegar Sólveig Anna hefur verið endurkjörin má telja víst að einhverjir starfsmanna Eflingar muni hugsa ráð sitt. Hún segir það í höndum starfsmanna hvernig samstarfið muni ganga.
Sólveig Anna segist koma á ný inn á skrifstofuna sem lýðræðislega kjörinn formaður. Hún voni að allir skilji hvað í því felist.
„Ég skil það. Félagar mínir skilja það. Það þýðir að ég kem þarna inn og ætlast auðvitað til þess að ég fái vinnufrið til að byrja að undirbúa kjarasamninga og til að leiða þessa mikilvægu baráttu. Við skulum bara sjá hvernig þetta fer,“ segir Sólveig Anna.
Ólöf Helga er starfandi varaformaður fram að aðalfundi Eflingar sem fyrirhugaður er í apríl og hefur starfað á skrifstofunni undanfarna mánuði.
Finnur þú fyrir kvíða á meðal starfsmanna vegna þessarra úrslita?
„Fólk er auðvitað bara að taka þetta inn. Melta þetta. Næstu dagar fara örugglega svolítið í það. Fólk þarf að skoða framtíðina og hvað það treystir sér til að gera í ljósi þess sem sannarlega hefur komið fram í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir.