Fréttastofa hefur að undanförnu fjallað um HSS og óánægju íbúa sem búa á svæðinu með þjónustu stofnunarinnar. Íbúarnir eru margir orðnir langþreyttir á þjónustu og kalla hana öllum illum nöfnum. Í dag sækja um fjögur þúsund manns á þessu 28 þúsund manna svæði sér heilbrigðisþjónustu í Reykjavík. Það er tæplega sjötti hver íbúi.
Fréttastofa hefur reynt að undanförnu reynt að leita svara hjá Markúsi Ingólfi Eiríkssyni, forstjóra HSS, en ekki hefur náðst í hann.
Framkvæmdastjórn stofnunarinnar sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu í gær sem birt var á Facebook-síðu HSS undir yfirskriftinni „Ómálefnaleg umfjöllun stefnir starfsemi HSS aftur í hættu“
Þar segir að frá árinu 2020 hafi verið unnið með starfsfólki að breytingum og að sú vinna sé farin að skila árangri. Þetta hafi hins vegar verið gert í erfiðu starfsumhverfi að mati stofnunarinnar.
„Starfsfólk HSS tekst á við þessi verkefni vitandi að stofnunin hefur um áratugi starfað í eitruðu umhverfi ómálefnalegrar umræðu sem er ein orsök helsta vandans sem við glímum við, mönnunarvandans. Linni þessum árásum ekki verður vandinn sem við reynum samhent að leysa einfaldlega enn verri,“ segir í yfirlýsingunni sem undirrituð er af framkvæmdastjórn.
Í yfirlýsingunni segir einnig að gagnrýni sé holl en að hún verði að vera málefnanleg. Telir framkvæmdastjórnin að stofnunin sé föst í vítahring neikvæðrar umræðu, sem hafi bein áhrif á getu stofnunarinnar til að sinna þjónustu við íbúa svæðisins.
Í stað þess að vinna með stofnuninni hafa sumir valið að fara þá leið að gagnrýna starfsfólk hennar ómálefnalega og vinna þannig gagngert gegn uppbyggingu. Sú orðræða er starfsfólki afar erfið og hefur bein áhrif á það hversu aðlaðandi HSS er sem vinnustaður, bæði fyrir núverandi og framtíðar starfsfólk. Afleiðingarnar hafa verið þær að við getum ekki veitt eins mikla þjónustu og samfélagið þarf.“
Heldur framkvæmdastjórnin því fram að tvær leiðir séu færar fyrir samfélagið á Suðurnesjum.
„Sú fyrri er sú sem haldið hefur verið á lofti í áratugi, leið ómálefnalegrar gagnrýni. Slíkt niðurrif getur aðeins spillt fyrir því að okkur sé kleift að rækja hlutverk okkar eins vel og hægt er. Seinni leiðin er að fara að fordæmi starfsfólks, sem í dag vinnur samhent að því að byggja upp heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.“