Guðbjörg tekur við stjórnartaumunum 22. febrúar og verður Sigurbjörn eigendum og stjórnendum til ráðgjafar fram eftir árinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Einingaverksmiðjan flytur um mitt ár í nýtt og mun stærra verksmiðjuhúsnæði sem er verið að reisa við Koparhellu í Hafnarfirði. Að sögn félagsins mun þar gefast tækifæri til að stórauka framleiðslugetu verksmiðjunnar til að anna aukinni eftirspurn.
Guðbjörg Sæunn kemur frá Veitum, þar sem hún var ráðin forstöðumaður fráveitu árið 2019. Hún tók svo við sviðinu Framtíðarsýn og rekstur í mars 2020 þegar skipulagi fyrirtækisins var breytt.
Guðbjörg Sæunn útskrifaðist með BS próf í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og með M.Sc próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Að námi loknu hóf Guðbjörg störf á framleiðslusviði Össurar, fyrst sem ferilseigandi á CNC renniverkstæðinu þar til hún tók við öryggis- og umbótasviði framleiðslu og síðar starfaði hún sem framleiðslustjóri Sílikondeildar.