Reynsla smærri byggða af jarðgöngum hefur verið sú að með þeim hefur ýmis þjónusta eins og verslun flust til stærri byggða. Bjarnabúð lifir hins vegar góðu lífi en hún var heimsótt í fréttum Stöðvar 2.
„Það bara reddaði versluninni. Af því að Bolvíkingar notuðu alltaf Óshlíðina, fóru alltaf, alveg sama hvernig veðrið var, fóru inn eftir á Ísafjörð, eða bara hvert sem þeir þurftu. En það kom enginn til okkar,“ segir kaupmaðurinn Stefanía Birgisdóttir.

„Svo koma göngin og þá bara breyttist allt hérna í Bolungarvík. Þá fór fólk að koma hingað til Bolungarvíkur. Koma í verslunina, koma í þjónustufyrirtæki, sundlaugina, nota félagsheimilið. Það breyttist allt.“
-Og hvað er það sem Ísfirðingar fá hér sem þeir geta ekki fengið á Ísafirði?
„Það er bara svo margt. Öðruvísi vöruval, öðruvísi vöruúrval. Svo finnst bara fólki gott að koma til mín og versla við mig,“ svarar Stefanía.
Vöruúrvalið finnst okkur furðumikið, búðin minnir á gamla kaupfélagið. Þetta er matvörubúð, sjoppa, ritfangaverslun..
„..fatnaður, gjafavara, leikföng, garn. Bara nefndu það.“

Hún heitir Verzlun Bjarna Eiríkssonar og á sér yfir eitthundrað ára sögu. Á efri hæðinni er vísir að verslunarsafni.
„Þetta er öðruvísi upplifun. Þetta er líka upplifun að koma í búðina mína,“ segir Stefanía Birgisdóttir, kaupmaður í Bjarnabúð.
Meira er sagt frá búðinni í þættinum Um land allt, þeim seinni af tveimur um mannlíf í Bolungarvík, en þættina má nálgast á Stöð 2+.
Hér má sjá fréttina: