Guðjón hættir vegna þrálátra meiðsla að því er fram kemur í tilkynningu frá KR-ingum en Guðjón kom til KR frá Stjörnunni í annað sinn á ferlinum síðasta vetur.
Hann lék fjóra leiki í maí í fyrra og skoraði tvö mörk áður en hann meiddist í hné. Það reyndust hans síðustu leikir á ferlinum.
Guðjón, sem lék 4 A-landsleiki, er uppalinn hjá Stjörnunni en lék bæði með Stjörnunni og KR hér á landi auk þess að spila í sænsku og dönsku úrvalsdeildinni, og svo efstu deild Indlands um skamma hríð árið 2018.
Guðjón varð bikarmeistari með KR árið 2008 og svo Íslands- og bikarmeistari með liðinu árið 2011. Hann átti einnig sinn þátt í því að Stjarnan yrði bikarmeistari í fyrsta sinn árið 2018.
Guðjón lék alls 156 leiki í efstu deild hér á landi og skoraði í þeim 63 mörk. Hann vann bronsskóinn árið 2017 þegar hann skoraði tólf mörk fyrir Stjörnuna sem endaði í 2. sæti.