Íslenski boltinn

Sjáðu markaveislu Breiðabliks og FH og mörkin úr sögu­legum sigri Fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þróttarar fagna marki Freyju Karínar Þorvarðardóttur gegn Stólunum.
Þróttarar fagna marki Freyju Karínar Þorvarðardóttur gegn Stólunum. vísir/guðmundur þórlaugarson

Þrjú lið eru efst og jöfn í Bestu deild kvenna í fótbolta. Ellefu mörk voru skoruð þegar 4. umferðin fór fram í gær.

Breiðablik hélt áfram að raða inn mörkum en liðið vann 4-0 sigur á Víkingi á Kópavogsvelli. Agla María Albertsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Íslandsmeistarana og Heiða Ragney Viðarsdóttir og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir sitt hvort markið.

Blikar hafa skorað nítján mörk í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins og eru á toppnum með tíu stig. FH og Þróttur eru einnig með tíu stig en þau unnu bæði í gær.

FH fór í góða ferð til Akureyrar og vann 0-3 sigur á Þór/KA í Boganum. Valgerður Ósk Valsdóttir, Berglind Freyja Hlynsdóttir og Elísa Lana Sigurjónsdóttir skoruðu mörk FH-inga. Akureyringar hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum með markatölunni 0-6.

Aðeins eitt mark var skorað þegar Þróttur fékk Tindastól í heimsókn. Það gerði Freyja Karín Þorvarðardóttir strax á upphafsmínútu leiksins. Þróttarar eru sem fyrr sagði með tíu stig en Stólarnir hafa tapað þremur leikjum í röð og eru með þrjú stig.

Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum með markatölunni 3-12 hefur Stjarnan nú unnið tvo leiki í röð. Í gær sigruðu Stjörnukonur Valskonur í Garðabænum, 1-0. Jakobína Hjörvarsdóttir skoraði markið.

Þá vann Fram FHL í nýliðaslagnum, 2-0. Þetta var fyrsti sigur Framara í efstu deild síðan 1988. Sara Svanhildur Jóhannsdóttir og Alda Ólafsdóttir skoruðu mörk Fram snemma leiks. Framarar fengu þar með sín fyrstu stig í deildinni en Austfirðingar eru stigalausir á botninum.

Mörkin úr öllum leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Leik lokið: Þróttur - Tindastóll 1-0 | Eina markið skorað úr fyrstu sókn leiksins

Þróttur tók á móti Tindastóli og vann 1-0 í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna. Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði eina mark leiksins á fyrstu mínútu. Þróttur fer með sigrinum upp að hlið Breiðabliks og FH í efstu sætum deildarinnar, taplaus með tíu stig. Tindastóll hefur tapað síðustu þremur leikjum eftir sigur í fyrstu umferðinni.

„Við gátum ekki farið mikið neðar“

Stjarnan sigraði Val í dag 1-0 í 4. umferð Bestu deild kvenna. Leikurinn var tíðindalítill en Stjarnan skoraði sigurmarkið með skalla úr föstu leikatriði og það reyndist nóg til þess að sækja stigin þrjú. Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari liðsins var ánægður með úrslitin eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×