Skoðun

Stjórn­mála­menn í vinnu fyrir norska sjókvíaeldið

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Nýlega var vakin athygli á því að oddvitar í nokkrum sveitarstjórnum á Vestfjörðum eru í vinnu hjá sjókvíaeldisfyrirtækjunum sem þar starfa. Þetta á við um formann bæjarráðs á Ísafirði, formann bæjarráðs í Bolungarvík og forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Hér á Austfjörðum höfum við oddvita Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð í stöðu framkvæmdastjóra hjá Fiskeldi Austfjarða, en hann er reyndar í leyfi frá sveitarstjórnarstörfum. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og forseti Alþingis réð sig síðan beint af þingi og í vinnu hjá fiskeldinu.

Það eru sem sagt fjölmargir núverandi og fyrrverandi stjórnmálamenn sem sinna hagsmunagæslu fyrir sjókvíaeldis fyrirtækin og auðvitað sig sjálfa um leið, menn þurfa að vinna fyrir kaupinu sínu.

Það er ekki sérlega heppileg staða þegar kjósendur vita ekki hverra hagsmuna kjörnir fulltrúar þeirra eru að gæta. Hvenær tala þeir fyrir hag fjöldans? Og hvenær tala þeir fyrir eigin hag og vinnuveitenda sinna?

Þetta eru spurningar sem vöknuðu til dæmis þegar meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings hafnaði tillögu minnihlutans, VG og Austurlistans, um að samþykkja ályktun um að beðið yrði með leyfisveitingar fyrir 10.000 tonna sjókvíaeldi í Seyðisfirði þar til vinnu við strandsvæðaskipulag fyrir Austfirði yrði lokið. Þó er það tillaga sem Skipulagsstofnun mælir með í áliti sínu um leið og áformin fá reyndar í heild afar neikvæða umsögn.

Mikil andstaða hefur verið meðal íbúa á Seyðisfirði og meirihluti íbúa hefur mótmælt öllum áformum um sjókvíeldi í firðinum og því liggur beint við hversu mikilvægt það er að íbúar fái sæti við borðið og fái að hafa áhrif í gegnum gerð þessa skipulags sem mun hafa mjög mótandi áhrif á framtíð Seyðisfjarðar.

Og þá er spurningin: Af hverju vill meirihluti sveitarfélagsins ekki bakka okkur í nærsamfélaginu upp? (Seyðisfjörður varð hluti af Múlaþingi 2020).

Oddviti Sjálfstæðisflokksins, Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnarinnar hefur gefið út að hann verði ekki í framboði í vor. Forvitnilegt væri að vita hvort hann sé að fara að vinna fyrir sjókvíaeldis fyrirtækin á svæðinu. Það er eðlileg og sanngjörn spurning í ljósi þess hversu margir stjórnmálamenn. núverandi og fyrrverandi, eru í þeirri stöðu. Yfir til þín Gauti.

Höfundur skrifar fyrir hönd Seyðfirðinga í VÁ! - félags um vernd fjarðar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×