Síðar var greint frá því að um grínatriði hafi verið að ræða en nú virðist sem tónlistarkonan standi ekki uppi með tómar hendur eftir allt saman. Barnavöruverslunin Fífa hefur fært hinni verðandi móður barnavagn og bílstól, og er tekið sérstaklega fram að hún þurfi ekki að skila gjöfunum í þetta skiptið. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu verslunarinnar.
Meint gjafakaup RÚV voru umdeild meðal netverja en telja má að andvirði varanna sem hún sást taka við í útsendingunni kosti ekki minna en 250 þúsund krónur.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, einn kynna Söngvakeppninnar, staðfesti í samtali við fréttastofu á dögunum að Guðrún hafi ekki fengið að halda gjöfunum og öllu hafi verið skilað. Um hafi verið að ræða grín og Guðrún hafi vitað af því fyrir fram.
Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson, sem afhenti Guðrúnu gjafirnar í umræddri útsendingu, fagnar niðurstöðunni í Instagram-hringrás sinni. Allt sé gott sem endar vel.
