Dusty sigurvegarar Ljósleiðaradeildarinnar

Snorri Rafn Hallsson skrifar
DUSTY XY

Dusty gat tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri gegn XY og að sjálfsögðu fór sá leikur fram í Nuke. Fyrri tveir leikir liðanna höfðu einnig verið í Nuke og hafði Dusty unnið þá báða, 16–9 og 16–4. H0Z1D3R var kominn aftur inn í leikmannahóp XY, en Dusty megin kom þjálfarinn CLVR inn í stað Cryths sem fékk sparkið í síðustu viku

Pandaz hafði betur gegn Thor í lokaeinvígi hnífalotunnar og hóf XY leikinn í vörn (Counter-Terrorists). Stilltu þeir upp í endurtöku í skammbyssulotunni og gekk sú aðgerð fullkomlega upp og sprengjan aftengd auðveldlega. Í næstu lotu komst Dusty í yfirtölu og setti sprengjuna niður á síðustu stundu, Dusty tók enga sénsa og jafnaði því strax. Voru Dusty menn beittir í næstu tveimur lotum og þurftu XY að koma með svar snemma í leiknum til að missa Dusty ekki frá sér. Það svar kom í fimmtu lotu með þrefaldri fellu frá Pandaz og endurtók hann leikinn í næstu lotu og felldi KeliTurbo CLVR til að jafna leika á ný.

Var Dusty þá komið í óþægilega stöðu og átti erfitt með að finna opnanir á glimrandi góðri vörn XY. Komst XY í stöðuna 7–3. Áfram var það Pandaz sem fór fyrir liði XY í aðgerðum sem reyndust Dusty dýrar og náði J0n einnig mikilvægum fellum með vappanum.

Viðspyrna Dusty kom loks í elleftu lotu. Með því að halda aftur af snúningum XY gafst Dusty færi á að vinna tvær lotur í röð en fjórföld fella frá KelaTurbo skilaði þeim sigri í hálfleiknum og færði þeim frían vappa beint í kjölfarið. Dusty héldu þó áfram að tikka inn lotum og staðan í hálfleik eins jöfn og hugsast getur.

Staða í hálfleik: Dusty 7 – 8 XY

Dusty voru ekki lengi að jafna á ný í fyrstu lotu síðari hálfleiks og koma sér yfir í þeirri næstu. Fóru Dusty sem eldur í sinu um kortið og voru fljótir að koma sér í 12–8. Það var hitnað undir þeim á ny, voru þeir iðulega í yfirtölu og komnir með lausnir á opnunum.

Eftir æsispennandi lotu náði J0n loksins í stig fyrir sína menn í XY í síðari hálfleik en Dusty hreinlega stráfelldu leikmenn XY í kjölfarið. Mættu þeir XY gjarnan framarlega í vörninni og var sú hlið öllu beittari hjá Dusty. Uppstillingin var gífurlega þétt hvort sem virkinu var haldið á neðra sprengjusvæðinu eða á útisvæðinu.

ThorsteinnF átti svo heiðurinn á því að fella J0n til að tryggja Dusty sigurinn í Ljósleiðaradeildinni 2021-2022 í 25. lotu.

Lokastaða: Dusty 16 – 9 XY

Þrátt fyrir mannabreytingar og erfiða andstæðinga hefur lið Dusty verið magnað á þessu tímabili og unnið sína leiki með 6,5 lotum að meðaltali. Er þetta fjórði deildarmeistaratitill Dusty á sex tímabilum.

Sagði Bjarni, leikstjórnandi Dusty eftir leikinn að liðið hefði þurft að hafa mikið fyrir sigrinum og tekið út mikinn þroska: „Það þarf bara eitt lið með góða spilara og metnað til að við verðum hræddir um titilinn okkar.“

Næstu helgi tekur Dusty svo þátt í undankeppni fyrir Blast Premier deildina sem er ein stærstu alþjóðlega deildin í CS:GO.

Enn eru þó tvær umferðir eftir af Ljósleiðaradeildinni og í næstu viku mætir Dusty Þór föstudaginn 25. Mars en XY og Vallea leika þriðjudaginn 21. mars. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir