Í tilkynningu segir að Magnús hafi lokið námi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og meistaraprófi frá Danmarks Tekniske Universitet 1990.
„Magnús hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum. Hann var framkvæmdastjóri framleiðslu hjá Marel til 2009. Hann var framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar hjá Alcoa Fjarðaáli frá 2009 og síðan forstjóri fyrirtækisins frá 2012 til 2019. Árið 2020 tók Magnús við starfi forstjóra Faxaflóahafna sf. Magnús hefur setið í stjórn Viðskiptaráðs og í stjórnum Háskólans í Reykjavík og Tækniskólans. Hann hefur jafnframt setið í stjórn Landsnets ehf. frá árinu 2020. Hann er einn af stofnendum ferðaþjónustufyrirtækisins Vök baths á Egilsstöðum og situr í stjórn fyrirtækisins.
Gunnar Tryggvason, sviðsstjóri viðskiptasviðs Faxaflóahafna, er staðgengill forstjóra og mun hann tímabundið taka við starfinu frá 14. apríl og gegna því þar til það verður auglýst að nýju í vor.
Tekur við af Tryggva Þór
Haft er eftir Birki Jóni Jónssoni, stjórnarformanni RARIK ohf., að stjórn hafi verið einróma um ráðningu Magnúsar og bjóði hann velkominn til starfa.
„Tryggvi Þór Haraldsson sem leitt hefur fyrirtækið farsællega síðan 2003 lætur af störfum sem forstjóri frá 1. maí en mun verða Magnúsi innan handar um sinn. Framundan eru spennandi tímar hjá RARIK, áskorun verður að fylgja eftir markmiðum um orkuskipti og loftslagsmál. Jafnframt er mikilvægt að tryggja áframhaldandi framfarir og uppbyggingu á tímum mikilla breytinga og tækniframfara.“
Á vef stofnunarinnar segir að RARIK sé opinbert hlutafélag í eigu ríkisins sem hafi verið stofnað 2006 þegar það tók við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins sem hófu starfsemi sína þann 1. janúar árið 1947. „Meginhlutverk fyrirtækisins hefur frá upphafi verið að afla og dreifa raforku með hagkvæmum hætti til almennings og atvinnulífs. Í dag er aðalverkefni RARIK að dreifa raforkunni en dótturfélagið Orkusalan sér um framleiðslu og sölumál. Fyrirtækið rekur fimm virkjanir auk hita- og fjarvarmaveitna á fimm stöðum á landinu. RARIK Orkuþróun ehf. er dótturfélag RARIK sem sinnir ráðgjafa- og þróunarverkefnum á vegum RARIK hér heima og erlendis.“