Hér erum við að tala um leikritið „Ef væri ég Gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, sem Leikdeild Ungmennafélags Biskupstunga var að frumsýna í Aratungu og munu sýna á næstunni. Leikdeildin hefur sýnt verk reglulega á þessu sama sviði frá því að Aratunga var tekin í notkun 1961.
Verkið fjallarí stuttu máli um gullfiskabúðareigandan Pétur, sem er að undirbúa það að láta sig hverfa með peningafúlgu, sem mögulega er illa fengin. Hann reynir að flýta sér en er stöðugt truflaður af sonum sínum sem birtast heima hjá pabba án þess að þeirra sé vænst eða óskað.

„Þetta er frábært verk en þetta er í annað sinn, sem ég kem hingað í Tungurnar og er með þessu félagi og það var tilhlökkunarefni að koma hingað aftur. Áhugamannaleikfélögin eru svo dýrmætur félagsskapur og þetta er svo frábært starf, sem unnið er hjá áhugamannaleikfélögunum út um allt land og er svo flottur vettvangur fyrir fólk að fá útrás fyrir sköpunargleðina og bara æðislegur félagsskapur,“ segir Ólafur Jens Sigurðsson, leikstjóri.

Hluti af stjórn leikdeildarinnar tekur þátt í leikritinu.
„Við höfum verið mjög öflug og setjum upp annað hvert ár og yfirleitt er mikil og góð aðsókn að leikritunum okkar,“ segir Aðalheiður Helgadóttir, formaður leikdeildarinnar.

Og það er framhjáhald og allskonar vesen í verkinu, er þetta svona í Biskupstungum?
„Kannski, ég veit það ekki, ég vona allavega að þeir sem sátu hérna í salnum kannist ekki við þetta. Þetta er ekki skrifað um okkur en hver veit,“ segir Sigurjón Sæland hlægjandi en hann er gjaldkeri deildarinnar.
