Greint var frá fyrirætlununum í yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna þriggja í morgun en erfiðlega hefur gengið að fá svör frá ráðherrunum um bankasöluna í nokkurn tíma. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa margir hverjir fordæmt þessa niðurstöðu og segja hana til marks um að ráðherrar vilji fórna bankasýslunni til að komast hjá því að taka sjálfir ábyrgð á sölunni.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að með yfirlýsingunni ríkisstjórnarinnar sé allri pólitískri ábyrgð varpað á bankasýsluna.
„Það er svolítið merkilegt að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnin hefur varið páskahelginni. Stjórnarforystan hafði tíma til að velta hlutum fyrir sér þar sem síminn var á silent þegar fjölmiðlar hringdu ítrekað. Vikulegur þriðjudagsfundur ríkisstjórnarinnar flæktist heldur ekki fyrir því hann var einfaldlega ekki boðaður, rétt eins og ekkert sérstakt sé á seyði í samfélaginu. En eftir alla þessa páskaíhugun spratt upp einhver hugmyndabastarður sem fer í sögubækurnar sem sérkennilegasta smjörklípa stjórnmálasögunnar. Einni ríkisstofnun var útrýmt til að komast undan pólitískri ábyrgð,“ segir hann í grein sem birtist á Vísi.
„Ef bankasýslan klúðraði, þá var það vegna þeirrar forskriftar sem fékkst frá ríkisstjórninni. Undan því verður ekki vikist.“
Almenningur orðið fyrir óafturkræfu tjóni
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ábyrgð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í málinu vera ótvíræða og bundna í lög.
„Hafi hann vanrækt skyldur sínar um yfirferð yfir tillögur bankasýslu um söluna, aðferð og tilboð ber honum að gangast við þeirri handvömm og víkja úr embætti. Hafi hann með fullri meðvitund samþykkt hvert einasta skref sem tekið var, eins og honum ber að gera ber hann einnig óskoraða ábyrgð og ber að víkja úr embætti,“ skrifar Helga Vala í Facebook-færslu.
Hún bætir við að almenningur hafi orðið fyrir óafturkræfu og mjög kostnaðarsömu tjóni vegna verka Bjarna og það verði ríkisstjórnin að viðurkenna.
„Annað er óboðlegt.“
Aum smjörklípa
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata segir það „klassískt yfirklór og aum smjörklípa“ að ætla að leggja niður bankasýsluna til að forða ráðherrum frá því að taka ábyrgð á eigin gjörðum.
„Bjarni Benediktsson ber skýra lagalega ábyrgð á öllu ferlinu en enn og aftur á að fella lög sem ekki var farið eftir til þess að grafa lögbrotið í rústunum,“ skrifar hún á Facebook.
Þá segir Þórhildur Sunna það til marks um tvískinnung að ríkisstjórnin lýsi því nú yfir í yfirlýsingu sinni að almenningur eigi skýra kröfu um að allar upplýsingar um bankasöluna séu upp á borðum á sama tíma og ráðherrar forðist að svara fyrirspurnum fjölmiðla.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spyr hvort lausn ríkisstjórnarinnar hafi hreinlega fundið í páskaeggi.