Berlind Svavarsdóttir lögmaður krafðist þess fyrir helgi, fyrir hönd fréttamannsins Þóru Arnórsdóttur, að embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra yrði úrskurðað vanhæft til að rannsaka meint kynferðisbrot fjögurra blaðamanna gegn Páli Steingrímssyni skipstjóra hjá Samherja. Héraðsdómur Norðurlands eystra hafnaði síðdegis í dag kröfu Þóru.
Berglind segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort málinu verði skotið áfram, enda sé mjög stutt síðan úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp.
Þóra er ein fjögurra blaðamanna með réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn lögreglunnar á broti gegn friðhelgi einkalífs Páls. Rannsóknin tengist meintum stuldi á síma Páls vorið 2021 og afritun á gögnum sem leiddu til umfjöllunar um svokallaða skæruliðadeild Samherja, sem voru á síma Páls skipstjóra. Á símanum var einnig að finna persónulegt kynferðislegt efni ef marka má greinargerð lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Blaðamennirnir fjórir; Þóra, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni, Þórður Snær Júlíusson ritsjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður Kjarnans; voru boðaðir til skýrslutöku vegna rannsóknarinnar í febrúar en yfirheyrslur frestast hingað til.
Skýrslutökur frestuðust fyrst vegna kæru Aðalsteins, sem lét reyna á það fyrir dómstólum hvort lögreglu væri heimilt að boða blaðamann í skýrslutöku vegna málsins. Héraðsdómur Norðurlands eystra komst að þeirri niðurstöðu í lok febrúar að lögreglunni væri óheimilt að kalla Aðalstein til skýrslutöku en Landsréttur sneri úrskurðinum við og Hæstiréttur vísaði kæru hans frá er hann reyndi að kæra frávísunarúrskurð Landsréttar til Hæstaréttar. Gera má ráð fyrir að yfirheyrslur muni hefjast fljótlega nema fjórmenningarnir höfði fleiri mál í tengslum við rannsóknina.