Knattspyrnusamband Evrópu er með strangar reglur þegar kemur að því að halda leiki á Evrópumótinu í fótbolta reyndar bara fyrir karlamótið því eins og við Íslendingum þekkjum þá er í lagi að setja leiki á EM kvenna á litla æfingavelli.
Það myndu nú flestir halda að Anfield næði að uppfylla gæðakröfur sambandsins en annað er að koma á daginn.
Enskir miðlar slá því upp að Anfield verði skilinn út undan þegar ákveðið á hvaða völlum verði spilað á Evrópumótinu á Bretlandseyjum 2028.
Alls verða valdir fimmtán leikvangar þar af tíu á Englandi. Þrátt fyrir að vera einn frægasti leikvangur landsins þá veður Anfield ekki í þessum hópi og ástæðan er stærð grasflatarins.
Lágmarkskröfur fyrir leikvang að halda leiki á EM er að vera með grasflöt sem getur hýst leikvang sem er að lágmarki 105 metrar á lengd og 68 metrar á breidd.
Anfield leikvangurinn er bara 101 metri á lengd á milli Kop-stúkunnar og stúkunnar við Anfield sem er nú unnið að því að stækka. Stærri stúka mun þó ekki leysa vandamálið því leikflöturinn mun ekkert stækka þótt að stúkan stækki.
Enska knattspyrnusambandið á að hafa látið Liverpool-menn vita af því að af þessum sökum komi Anfield ekki til greina.
Eina leiðin fyrir Liverpool borg að hýsa leiki er að Everton takist að klára nýja Bramley Moore leikvanginn í tíma. Sá leikvangur á að vera tekinn í notkun fyrir 2024-25 tímabilið og eru góðar líkur á því.