Sjálfstæðisflokkurinn bíður hins vegar afhroð í könnuninni og mælist aðeins með 19,4 prósent og hefur ekki mælst lægri allt kjörtímabilið en hann fékk rúm þrjátíu prósent í síðustu kosningum. Flokkurinn fengi fimm menn kjörna af úrslitin yrðu á þennan veg en hefur átta fulltrúa í dag.
Framsóknarflokkurinn er hins vegar á siglingu og nær inn þremur mönnum á kostnað Sjálfstæðisflokks.
Sósíalistar bæta einnig töluverðu við sig og ná tveimur mönnum í borgarstjórn. Flokkurinn náði einum manni inn síðast.
Samfylkingin er samkvæmt þessari könnun stærsti flokkurinn í borginni en missir þó nokkuð fylgi frá kosningum og missir einn mann.
Píratar bæta hins vegar verulega við sig frá síðustu kosningum og bæta við sig einum manni.
Vinstri græn standa í stað og halda sínum eina manni með 6,3 prósent atkvæða en Viðreisn dalar heldur frá síðustu kosningum og missir annan sinna manna með 6,7 prósent.
Flokkur fólksins mælist yfir kjörfylgi sínu og heldur sínum borgarfulltrúa og eins og undanfarið mælist Miðflokkurinn ekki með mann inni í borgarstjórn.
Þrettán prósent vilja Einar sem næsta borgarstjóra
Í könnuninni var einnig spurt hvern fólk myndi helst vilja sjá sem næsta borgarstjóra.
Þar sögðust 30 prósent aðspurðra vilja sjá Dag B. Eggertsson áfram gegna embættinu. Nítján prósent sögðust vilja sjá Hildi Björnsdóttur, oddvita á lista Sjálfstæðismanna, sem næsta borgarstjóra og þá sögðust þrettán prósent vilja sjá Einar Þorsteinsson, oddvita á lista Framsóknar, sem næsta borgarstjóra.