Í fréttum Stöðvar 2 var sent beint frá Akraneshöfn en þar lönduðu þrír strandveiðibátar síðdegis og í kvöld. Þar var Óskar Óskarsson á Sval AK nýbúinn að landa um fimmhundruð kílóum, sem hann veiddi um 10-12 sjómílur undan Akranesi.
Skömmu áður hittum við Sigfús Jónsson á Fögru Fríðu AK og spurðum hvernig hefði gengið:
„Það gekk bara bærilega.“
-Var ekki leiðindaveður?
„Jú, það var hundleiðinlegt,“ svaraði Sigfús en kvaðst þó finna stemmninguna. Allir væru að gera sig klára og vonast til að það yrði góð veiði.
„Verðið hátt og nóg af kvóta. Þá verða allir sælir og glaðir, sko.“
-Og ráðherrann er svona búinn að lofa aðeins meiru?
„Það hlýtur að vera. Hún hlýtur að lofa öllu fögru, svona fyrir sveitarstjórnarkosningar.“
-Þannig að það stefnir í gott sumar?
„Já, já. Ekki spurning,“ svaraði Sigfús.
Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra er búin að gefa út 11.100 tonna kvóta fyrir strandveiðarnar, þar af 10.000 tonn í þorski og 1.000 tonn í ufsa. Gera má ráð fyrir að aflanum verði landað í um fimmtíu höfnum hringinn í kringum landið, sem ætti að færa líf og fjör í sjávarbyggðir landsins.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: