Það var í febrúar sem að mygla fannst í húsnæði skólans á Eyrarbakka þar sem 7. til 10. bekkir skólans stunda sitt nám. Að jafnaði eru ríflega fimmtíu nemendur skólans þar. Börnin voru strax flutt í annað húsnæði í bænum. Þeim var annars vegar komið fyrir á veitingastaðnum Rauða húsinu og hins vegar í félagsheimilinu.
Ragna Berg Gunnarsdóttir deildarstjóri í skólanum segir að myglan hafi fundist eftir að starfsfólk og nemendur fóru að finna fyrir veikindum. Því hafi legið á að færa skólahaldið úr húsinu hratt og til að það myndi ganga upp þurfti að dreifa börnunum um bæinn
„Þetta hefur bara gengið ótrúlega vel upp. Við vorum fyrst með blandað þannig að krakkarnir voru að fara á milli en okkur fannst þau vera svolítið tætt,“ segir Ragna.

Því var brugðið á það að hafa sömu bekki alltaf í sama rýminu og segir hún það hafa gefist vel. „Okkur finnst þetta svona hafa róast en þetta er svolítið meira hlaup fyrir kennarana.“
Hún segir aðstæður erfiðar fyrir alla. Um helgar og á kvöldin er veitingahúsið í fullum rekstri og því hlutir oft færðir til. Þá sé lítið næði og sem dæmi um það hafi hún fundað á klósetti og í lyftunni með nemendum.
Þá hafi mygla sem einnig kom upp í gamla skólanum á Stokkseyri gert þeim erfitt fyrir þar sem nemendur fara þangað í list- og verkgreinar
Ragna segir að til standi að koma fyrir færanlegum kennslustofum til bráðabirgða á lóðinni við skólann en óljóst er hvenær þær verði tilbúnar og hvernig skólahaldið verði í haust.
„Það er svolítið mikil óvissa í þessu eins og þetta er og við eigum ekki alveg von á að vera kannski komin alveg inn en við fáum að nota þá stofurnar út á Stað líka en þá erum við að fara alveg þvert yfir bæinn. Það verður sem sagt skólinn okkar alveg austast og svo er Staður hérna alveg vestast.“