Skoðun

Út­kall - kjósum öll!

Mjöll Matthíasdóttir skrifar

Nú stendur yfir kosning formanns í Félagi grunnskólakennara. Síðar í mánuðinum fer svo fram kosning til annarra trúnaðarstarfa fyrir félagið. Kosin verður stjórn, samninganefnd og skólamálanefnd. Það er hagur okkar allra að til þessara starfa veljist fjölbreyttur og öflugur hópur. Ert þú grunnskólakennari? Hefur þú hugleitt að gefa kost á þér til starfa?

Í umræðu samfélagsins um skólamál, um kjaramál og við samningaborðið skiptir máli að rödd okkar kennara hljómi. Stefnan þarf að vera skýr. Stefnuna móta kennarar. Allir kennarar - ekki bara þau sem kjörin eru til forystu. Tökum þátt í starfi félagsins, látum okkar rödd heyrast.

Skólastarf tekur stöðugum breytingum. Kennarastarfið sömuleiðis. Þetta þekkjum við kennarar best. Kennarastarfið er fjölbreytt, lifandi og skemmtilegt en einnig fullt af áskorunum. Sístækkandi vandi við mönnun skóla hefur áhrif á gæði skólastarfs og eykur álag á þau sem þegar eru við störf. Þeirri þróun þarf að snúa við. Okkur vantar fleiri kennara í hópinn. Starfsaðstæður og launakjör geta haft þar mikið að segja og þurfa að vera þau sömu og öðrum sérfræðingum standa til boða. Sú leiðrétting þolir enga bið. Menntamálayfirvöld og rekstraraðilar grunnskóla bera þar ábyrgð.

Grunnskólakennarar, það er verk að vinna. Við þurfum að vinna það saman. Ég er tilbúin að leiða hópinn. Góð þátttaka í kosningum félagsins sýnir styrk þess. Kjósum öll!

Höfundur er grunnskólakennari í Þingeyjarskóla og frambjóðandi í formannskjöri Félags grunnskólakennara 2022.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×