Reuters vísar í fjölmiðla á Kúbu og Miguel Diaz-Canel, forseta Kúbu, sem sagði frá líklegum uppruna sprengingarinnar í Saratoga-hótelinu.
„Þetta var ekki sprengja eða árás,“ sagði forsetinn við Reuters. „Þetta var bara mjög óheppilegt slys.“
Fréttaveitan segir sprenginguna hafa vakið ótta meðal íbúa í hverfinu, þar sem verið er að opna ferðamannaiðnaðinn á nýjan leik eftir faraldur nýju kórónuveirunnar. Iðnaðurinn er gífurlega mikilvægur á Kúbu.
Ekki er ljóst hvort búið sé að bjarga öllum út úr brakinu.
Þegar sprengingin varð var hótelið lokað en byggingin er rúmlega aldargömul. Einn ríkismiðill Kúbu sagði eingöngu starfsmenn hafa verið í hótelinu og var vísað í ummæli talsmanns fyrirtækisins sem rekur flest hótel Kúbu, en fyrirtækið er á vegum hers landsins.
Starfsmennirnir voru að undirbúa opnun fimm stjörnu hótelsins eftir nokkra daga.
Áðurnefndur talsmaður sagði starfsmennina hafa verið að framkvæma viðhald á gaskerfi hússins. Svo virðist sem að slys hafi orðið við það.