Skoðun

Grænn iðn­garður byggður á hring­rásar­hugsun á Grun­dar­tanga

Björgvin Helgason og Ólafur Adolfsson skrifa

Í dag fögnum við enn einum áfanga öflugs atvinnusvæðis Grundartanga sem fyrirtæki og sveitarfélög hafa byggt upp sameiginlega. Þá verður undirrituð sérstök viljayfirlýsing um uppbyggingu græns iðngarðs byggðum á hringrásarhugsun. Að verkefninu standa Þróunarfélag Grundartanga, fimm sveitarfélög, Faxaflóahafnir og 15 öflug fyrirtæki. Sérlegur verndari verkefnisins er Guðlaugi Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Um 20 stór og smá iðn‐ og þjónustufyrirtæki á Grundartanga veita meira en 1.100 manns atvinnu að jafnaði. Rekja má um 2.000 afleidd störf til starfsemi svæðisins. Þetta samfélag fyrirtækja eru langstærstu vinnuveitendur Hvalfjarðarsveitar og Akraness. Tvö stærstu fyrirtækin, Norðurál og Elkem Ísland, greiða laun og kaupa þjónustu fyrir meira en 20 milljarða króna á ári.

Atvinnusvæðið hefur verið byggt upp í sameiningu kröftugra fyrirtækja og framsýnna sveitarfélaga. Til frekari framfaraskrefa var Þróunarfélag Grundartanga stofnað 2016. Að því standa Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Akraneskaupstaður, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Það sameinar krafta sveitarfélaganna, Faxaflóahafna og fyrirtækja á atvinnusvæðinu til að skapa öflugt sóknarsvæði og þróa nýja vaxtarmöguleika.

Uppbyggingu græns iðngarðs á Grundartanga er ætlað að styðja við sjálfbærni með því að innleiða félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjónarmið í skipulag, stýringu og framkvæmd. Ávinningur verkefnisins er í takt við stefnu stjórnvalda og sveitarfélaga um þróun í átt að hringrásarhagkerfi og styður aðgerðaráætlun í loftlagsmálum.

Grænn iðngarður Grundartanga hefur alla burði til að geta orðið leiðandi á heimsvísu með áherslu á sjálfbærni, bætta fjölnýtingu auðlinda og innviða í gegnum hringrásarhagkerfi. Þar liggja mörg tækifæri í að minnka áhrif loftslagsbreytinga, auka skynsemi í hráefnanotkun, koma á fjölnýtingarverkefnum og bæta enn frekar endurheimt auðlinda.

Þessi viljayfirlýsing er mikilvæg fyrir framtíðaruppbyggingu athafnalífs á Grundartanga. Hún veit á gott fyrir íbúa nærliggjandi sveitarfélaga sem og framtíðarkynslóðir.

Í dag verður undirrituð yfirlýsing um grænan iðngarð hringrásarhugsunar á Grundartanga.

Björgvin Helgason er oddviti Hvalfjarðarsveitar.

Ólafur Adolfsson er formaður Þróunarfélags Grundartanga og bæjarfulltrúi á Akranesi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×