Samningar náðust milli stjórnvalda í Úkraínu og Rússlandi í gær um að flytja hermennina á brott, sem virðist þýða að Rússar hafa nú náð Maríupól alfarið á sitt vald.
„Ég vil ítreka: Úkraína þarfnast úkraínskra hetja á lífi. Það er grundvallaratriði,“ sagði Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti um ákvörðunina í myndskeiði sem birt var í gær.
Hanna Maliar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, sagði seint í gærkvöldi að 53 alvarlega særðir hermenn hefðu verið fluttir á sjúkrahús í Novoazovsk og fleiri en 200 hefðu verið fluttir til Olenivka.
Um er að ræða svæði undir stjórn Rússa og saðgi Maliar að fangaskipti myndu eiga sér stað í kjölfarið til að fá hermennina til baka.
Talið er að um 600 hermenn hafi verið í Azovstal síðustu vikur og sennilegt að aðgerðum sé ekki lokið. Ástvinir hermannana hafa lengi kallað eftir því að þeim yrði bjargað, enda langt síðan ástandið í verksmiðjunni varð afar slæmt; margir særðir og vatn og matur af skornum skammti.
