Nýtt bílastæða- og tæknihús hins nýja Landspítala verður um 19 þúsund fermetrar að stærð með um 500 bílastæði og 200 hjólastæði. Í húsinu verða þar að auki 200 bílastæði í bílakjallara við meðferðarkjarnann fyrir sjúklinga og aðstandendur. Þá liggja einnig fyrir áfrom um byggingu bílakjallara undir Sóleyjartorgi, sambærilegum bílakjallara Hörpunnar, sem er ætlað sama tilgangi.
Í fréttatilkynningu er tekið fram að tæknihluti hússins sé afar mikilvægur en þar verði tæknirými fyrir varaaflsvélar Landspítalans þannig að tryggt sé að rafmagn verði til staðar á öllu svæðinu ef truflanir verða á afhendingu rafmagns. Það sama gildir um búnað fyrir varakyndingu ef skortur verður á heitu vatni. Húsið mun þar að auki hýsa kælikerfi spítalans og loftræstikerfi.

Góður skriður á verkefni um nýjan Landspítala
„Það er ánægjulegt að enn bætast við byggingar sem eru á framkvæmdastigi hér í þessari mikilvægu uppbyggingu við nýjan Landspítala. Vel hefur tekist til hér við framkvæmdir á svæðinu og bílastæða – og tæknihúsið er áfangi á þessari vegferð að nýjar byggingar hér á svæðinu myndi eina heild,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, tekur í sama streng: „Það er ánægjulegt að sjá hversu góður skriður hefur verið á verkefninu um nýjan Landspítala. Við fögnum hverjum áfanga, stórum sem smáum, á þessari vegferð því takmarkið færist nær. Bílastæða- og tæknihúsið er mikilvægur hlekkur í þessu stóra verkefni“.

Eitt af mörgum mikilvægum skrefum
Varðandi útboð á verkefninu segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdarstjóri Nýs Landspítala, að eftir alútboð hafi verið samið við byggingarverktakann Eykt um bæði hönnun og verkframkvæmd. „Jarðvinnu á rannsóknahúsinu er lokið og nú strax hefst nýr áfangi við jarðvinnu á bílastæða– og tæknihúsinu. Dagurinn í dag eitt af mörgum mikilvægum skrefum í hraðri uppbyggingu hér við Hringbraut“.
Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Eyktar ehf., segir Eykt þekkja vel til Hringbrautarverkefnisins: “Við erum núna að steypa upp meðferðarkjarnann, þar er allt á fullri ferð. Samstarfið gengur vel við Nýja Landspítalann og húsið sem nú fer af stað er enn ein ný áskorun”.
