Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem gerði gæsluvarðhaldskröfuna. Þar segir að maðurinn hafi ítrekað komið við sögu hjá lögreglu vegna blygðunarsemisbrota gagnvart börnum og fullorðnum á sama svæði síðustu vikur og mánuði.
Þá kemur fram í tilkynningunni að maðurinn muni una úrskurðinum og ekki gera tilraun til að fá honum hnekkt fyrir Landsrétti.
Maðurinn valdið usla og óánægju í Laugardal
Samkvæmt heimildum fréttastofu er um sama mann að ræða og hefur ítrekað berað sig fyrir framan börn í Laugardal. Greint var frá því fyrir aðeins tveimur dögum að foreldrar á svæðinu væru orðnir langþreyttir á ástandinu. Maðurinn var í mars á þessu ári dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hrækja á lögreglumann og fyrir að bera sig og kasta af sér þvagi í viðurvist barna í Laugardalnum.
Í október á síðasta ári var þá greint frá því að forsvarsmenn íþróttafélagsins Þróttar hefðu brugðið á það ráð að loka öllum aðgöngum nema einum að gervigrasvelli sínum í Laugardalnum, til að sporna við áreiti mannsins, sem er heimilislaus, gagnvart börnunum. Íþróttastjóri Þróttar lýsti algjöru úrræðaleysi, og sagði að þó maðurinn hefði ítrekað verið handtekinn væri honum sleppt og hann mættur jafnharðan aftur á svæðið.