Á vef MAST segir að kartöflumygla af völdum sveppsins Phytophtora infestans sé vel þekktur sjúkdómur á heimsvísu en Ísland hafi að mestu verið laust við faraldra síðustu áratugi.
Í fyrra kom sjúkdómurinn hins vegar upp á Suðurlandi, þar sem mest bar á myglunni í Þykkvabæ og á nærliggjandi svæðum.
„Rannsóknir á sýnum úr smituðum görðum af þessu svæði benda til þess að smit hafi borist til landsins með innfluttu útsæði eða matarkartöflum frá Danmörku, þar sem um var að ræða sama stofn (EU41 A2) er hefur náð mikilli útbreiðslu undanfarin ár í norðanverðri Evrópu,“ segir á vef MAST.
Erfitt að meta hvort útsæði beri með sér smit
Í sumar sé því hætta á smiti frá sýktu útsæði frá því í fyrra en einnig geti ný gró dreift sér með vindum ef mygla kemur upp.
Kartöflubændur, í samvinnu við ráðgjafa í garðyrkju, muni vinna að því að lágmarka áhættu á dreifingu og uppkomu smita með auknu eftirlit og notkun varnarefna. Veðurfar muni ráða miklu um það hvort sjúkdómurinn nær sér á strik en hættan á útbreiðslu aukist með hlýju og röku veðri.
„Brýnt er fyrir áhugaræktendum og almenningi að fylgjast vel með kartöflugörðum sínum í sumar. Samkvæmt ráðleggingum er best að setja ekki niður smitað útsæði í heimilisgarða, en erfitt getur þó verið að meta hvort útsæði beri með sér smit. Mjög mikilvægt er að almenningur taki strax upp plöntur sem sýna einkenni smits og fargi þeim,“ segir Matvælastofnun.
Kartöflumygla
Einkenni kartöflumyglu: Svartir blettir á blaðendum og stönglum en að lokum falla grösin alveg.
Förgun: Sýktum kartöflum og grösum á að farga strax, til dæmis í svörtum ruslapokum. Ekki setja sýkta úrganginn með öðru lífrænum afgöngum.