Í Hafnarfirði munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins formlega endurnýja meirihlutasamstarfs sitt frá síðasta kjörtímabili.
Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins, munu hafa vistaskipti í stóli bæjarstjóra á miðju kjörtímabili.
Skrifað verður undir samninginn í Hellisgerði í Hafnarfirði klukkan 14 í dag.
Tókst í þriðju atrennu
Það sama verður upp á teningnum á Akureyri í dag, sem verið hefur vinabær Hafnarfjarðar frá árinu 1999.
Þar munu fulltrúar L-listans, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins, undirrita málefnasamning um samstarf flokkanna. Undirritunin fer fram í Lystigarðinum á Akureyri klukkan 15.
Flokkarnir tilkynntu í síðustu viku að þeir hefðu náð saman um myndun meirihluta. Áður höfðu tvær meirihlutaviðræður í bænum farið út um þúfur.
Reiknað er með að Ásthildur Sturludóttir, sem ráðin var sem bæjarstjóri árið 2018, verði áfram bæjarstjóri. Önnur skipting embætta liggur ekki fyrir.