Brautskráningarræðan og brautskráning þeirra 150 nemenda sem útskrifuðust í dag voru síðustu verk Jóns sem skólameistara við skólann. Hann hefur verið skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 2003 og hefur starfað við skólann í meira en fjóra áratugi.
Úrelt kúgunartæki feðraveldisins
Í ræðunni lýsti Jón Már lokaprófum sem gamaldags kúgunartæki feðraveldis embættismanna. Þau væru „þægilegt guðlegt tæki“ til að flokka fólk en hefðu ekkert með nám og menntun að gera.
„Það þarf ekki að fara langt aftur í tíma til að rifja upp að þetta tæki sendi alla með lesörðugleika burt, alla með of ríka athygli burt, alla sem áttu erfitt með að sitja stilltir og svo mætti telja,“ sagði Jón Már í ræðunni í morgun.

Hann sagði að í MA hefði í nokkurn tíma verið stefnt frá flokkun af slíku tagi. Það hefði verið gert „með starfsþróun kennara, öflugri fagstjórn, samstarfi og samþættingu greina, aukinni námsráðgjöf og sálfræðiþjónustu en fyrst og fremst með því að treysta starfsfólki og nemendum til þess að vilja gera eins vel og mögulegt er.“
„Það þarf að hafa fyrir bóknámi eins og öllu öðru námi, það þarf að sýna því áhuga og ástundun. Nám er þroskasamtal til skilnings, þar sem þekking er tengd saman og býr til nýja hugsun, nám,“ sagði skólameistarinn í ræðunni.
Stuðningur við nemendur mikilvægur
Fyrr í ræðunni nefndi Jón Már að nemendahópur skólans væri fjölbreyttur, því í langan tíma „höfum við tekið alla inn í skólann sem hafa lokið hæfnimarkmiðum grunnskólans, hér geta allir náð árangri sýni þeir áhuga og seiglu.“
Hann sagði að í MA teldu þau mikilvægt að veita nemendum góðan stuðning og leiðsögn svo þeir hrökklist ekki frá námi ef eitthvað bjátar á. Það þyrfti hugkvæmni til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahópinn og til þess hefði skólinn öflugt stoðteymi sem tæki vel utan um nemendur.
Hann sagði að starf stoðteymisins, sem innihéldi tvo náms-og starfsráðgjafa og skólasálfræðing, hafi spurst út og að foreldrar treystu skólanum fyrir börnum sínum „af því að við höfum sérfræðinga á staðnum með úrræði.“
Nánar má lesa um ræðu Jóns Más í frétt Skapta Hallgrímssonar á Akureyri.net.